Þegar við í Brosandi teyminu vorum litlar þá var Hrekkjavaka, eða Allraheilagramessa eins og hún útleggst á okkar ylhýra móðurmáli, eitthvað sem birtist okkur nær eingöngu sem hræðilega spennandi búningahátíð í bandarískum sjónvarpsþáttum og bíómyndum. Undanfarin ár hefur hátíðin þó rutt sér til rúms hérlendis og með hverju árinu ganga fleiri og fleiri börn milli húsa og sníkja gotterí af velmeinandi nágrönnum í hræðilega skreyttum húsum.
Þessi þróun er sannarlega spennandi en við fullorðna fólkið erum þó mörg hver orðin uggandi yfir því hversu margir dagar eru orðnir uppfullir af dísætu gotteríi hjá grísunum okkar.
En hver segir að hrekkjavöku-nammi þurfi að vera hlaðið sykri? Við hjá Brosandi erum sannfærðar um að við getum dregið úr sætindinum á þessum skemmtilega degi en hvaða góðgæti fær börnin til að brosa en hræðir á sama tíma ekki tannlækninn þeirra? Hér koma þrjár hugmyndir sem hægt er að hafa bakvið eyrað þegar þið byrjið að skipuleggja hrekkjavökuhryllinginn á ykkar bæ:
1. Tyggjódraugar
Fyrsta hugmyndin okkar er jafn holl og hún er skemmtilegt! Tyggjódraugar eru gotterí sem bæði er gaman er að láta krakkana fá og frábært fyrir þau að jórtra til að lækka sýrustigið í munninum eftir nammiflóðið. Vefjið bara litlu stykki af sykurlausu tyggjói í hvíta servíettu og festið það með bandi. Það er hægt að teikna eða líma augu á servíettuna til að gera þetta enn draugalegra!
2. Kókosköngulær
Ughhh… þessi hugmynd er svo ógeðslega góð að það yrði mögulega ekkert eftir fyrir krakkana ef við yrðum skildar eftir með þetta eftirlitslausar. Já, við erum að tala um hollar og góðar kókoskúlur með höfrum og döðlum. Þetta er uppskrift sem við mörg eigum til heima en með því að uppfæra hana örlítið með augum og dökkum súkkulaði fótum verður það hræðilegasta sem þú getur gefið!
3. Poppaðar múmíuhendur
Þessi frábæra lausn er ekki bara hræðilega skemmtileg heldur einnig hagkvæm. Keyptu einfalda plasthanska, plasteygjur, poppmaís og olíu. Leyfðu svo krökkunum í þínu lífi að hjálpa þér að koma brakandi fersku poppi fyrir plasthönskunum og hafðu þær svo við hurðina í risastórri skál þegar skrímslin byrja að flæða að.
Þetta eru okkar uppáhaldshugmyndir - Eigið þið kannski til einhverjar góðar hugmyndir sem þið viljið deila?